Stjórn Félags atvinnurekenda skorar á sveitarfélög að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði til að mæta hækkunum á fasteignamati.

Hækkun um 40% á fimm árum

Stjórn Félags atvinnurekenda samþykkti þessa áskorun í gær en þó fasteignamat atvinnuhúsnæðis hafi hækkað um 40% á fimm árum þá innheimta flest sveitarfélög sömu prósentu í fasteignaskatt og áður. Því þyngjast álögur á fyrirtæki mjög með hækkandi fasteignamati, en einu sveitarfélögin sem hafa endurskoðað álagningarprósentuna eru Kópavogur og Seltjarnarnes.

Samkvæmt nýju fasteignamati hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis um 7,6% milli ára á landinu öllu, en 9,1% ef einungis er horft á höfuðborgarsvæðið. Miðað við sömu álagningarprósentu þýðir þetta hundruð milljóna króna aukna skattbyrði á atvinnulífið.

Hætta á að fari út í verðlagið

Segir í ályktuninni að fyrirtæki megi ekki við slíkum auknum álögum nú þegar mörg þeirra eigi fullt í fangi með að standa undir launahækkunum í nýjum kjarasamningum. Hættan sé á að annars velti kostnaðarhækkanirnar út í verðlagið.

Á landinu öllu hefur hækkun síðustu fimm ára numið 36% en 40% á höfuðborgarsvæðinu. Með lækkunum sínum á skattprósentunni hafa Kópavogsbær og Seltjarnarnes haldið tekjum sínum af fasteignasköttum stöðugum, en önnur, þar með talin Reykjavíkurborg, hafa fengið hundruð milljóna í tekjuauka. Þessi auknu álögur séu alveg óháð afkomu fyrirtækja og sé því óheppileg skammtheimta á fyrirtæki segir í ályktun félagsins.