Bandaríska flugmálastjórnin (FAA) hefur sektað flugfélagið Alaska Airlines um 590 þúsund Bandaríkjadali fyrir að hafa vísvitandi notað Boeing 737-400 vél í eigu félagsins án þess að vélin hefði tilskilin réttindi.

Frá þessu er greint á vef Flightglobal en vélin sem um ræðir flaug yfir 2 þúsund flug án þess að vera vottuð eins og það er kallað en vélar eru vottaðar reglulega af flugmálayfirvöldum eftir að hafa farið í gegnum reglubundnar skoðanir.

Lítilsháttar eldur kom upp í flugstjórnarklefa vélarinnar um miðjan janúar síðastliðin en vélin var þó ekki í flugi þegar eldurinn kom upp. Eldinn mátti rekja til flæktra rafmagnssnúra, en að öllu jöfnu hefði verið leyst úr slíkri flækju í reglubundnu viðhaldi. Vélin fór síðast í gegnum viðhaldsskoðun í ágúst 2008.

Þegar nánar var að gáð kom í ljós að svipaðar flækjur hefðu átt sér stað í níu öðrum vélum félagsins. Úr því var þó leyst samkvæmt yfirlýsingu frá FAA en félagið verður engu að síður sektað fyrir að hafa notað fyrrgreinda vél án þess að setja hana í gegnum reglubundna viðhaldsskoðun.