Samskip eiga sér áratuga sögu og hefur félagið vaxið gríðarlega hér á landi sem erlendis frá stofnun. Fyrirtækið hefur sjöfaldast að umfangi frá því fyrir síðustu aldamót og nemur velta samstæðunnar um 100 milljörðum króna. Hjá Samskipum starfa um 1.400 manns á 55 starfsstöðvum í 24 löndum um allan heim og þar af starfa um 500 manns á átta stöðum víðs vegar um Ísland. Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa hf., segir að rekstur samstæðunnar standi í meginatriðum á tveimur grunnstoðum: annars vegar rekstri eigin flutningakerfa í Evrópu og Norður-Atlantshafi undir merki Samskipa og hins vegar flutningsmiðlun á hitastýrðum vörum um allan heim undir merki Samskip Logistics. Pálmar telur mikil vaxtatækifæri vera til staðar á báðum vígstöðvum.

Finnið þið fyrir mikilli samkeppni bæði hér heima og erlendis?

„Vissulega. Við erum í harðri samkeppni á öllum okkar mörkuðum og þrífumst vel í samkeppnisumhverfi. Okkur finnst sætt að ná árangri í samkeppni og metnaður okkar er allur í þá átt að bjóða framúrskarandi þjónustu þannig að viðskiptavinir á þessum mörkuðum sem við störfum á kjósi að stunda viðskipti við okkur fremur en keppinautana. Það er auðvitað gleðilegur árangur þegar viðskiptavinurinn velur okkur fram yfir aðra. Við störfum á mörgum mörkuðum og erum í samkeppni við fjöldann allan af fyrirtækjum.“

Hafið þið komið ykkur í sterka stöðu erlendis?

„Í Evrópu erum við eitt af stærri flutningafyrirtækjunum í gámaflutningum þannig að við erum vel þekkt þar og sömuleiðis í kæli- og frystiflutningum. Við höfum bæði byggt á eigin reynslu og sérhæfingu auk þess sem félagið hefur fjárfest í ýmsum rekstri sem við njótum núna góðs af með þekkingu og reynslu sem við höfðum ekki fyrir. Við höfum ótrúlega fjölbreyttan og öflugan hóp starfsmanna með mjög ólíkan bakgrunn af öllum mögulegum þjóðernum og báðum kynjum þó við vildum gjarna sjá fleiri konur í okkar geira.“

Eru konurnar sem sagt of fáar í geiranum?

„Í flutningageiranum bráðvantar okkur fleiri konur til starfa. Hér er verk að vinna í að sannfæra fleiri konur um að koma til liðs við okkur og skapa að­ stæður sem gera þetta umhverfi áhugaverðara fyrir þær, enda er einsleitni aldrei góð. Við erum reyndar afar stolt af niðurstöðu jafnlaunaúttektar sem PwC framkvæmdi fyrir okkur fyrr á þessu ári, en samkvæmt henni er kynbundinn launamunur ekki til staðar hjá Samskipum. Við þurfum stöðugt að vera á tánum og hugsa út fyrir boxið og til þess þarf góða samsetningu kvenna og karla í allar stöður. Þannig náum við betri árangri, enda er fyrirtæki fyrst og fremst þekking starfsfólksins sem þar starfar og fjölbreytileiki er þar afar mikilvægur.“

Nánar er rætt við Pálmar Óla í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið á rafrænu formi með því að smella á Tölublöð.