*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 3. ágúst 2021 16:51

Fjár­festar hóf­samir í kjöl­far versló

Mesta breytingin á aðalmarkaði kauphallarinnar var á bréfum Icelandic Seafood sem lækkuðu um 0,89% og Reita sem hækkuðu um 0,86%.

Ritstjórn

Fjárfestar voru nokkuð hófsamir fyrsta viðskiptadag kauphallarinnar eftir verslunarmannahelgina, en ekkert félag hækkaði eða lækkaði um meira en 0,9%.

Mesta breytingin var á bréfum Icelandic Seafood, sem lækkuðu um 0,89% í einnar milljónar viðskiptum, en þar á eftir komu bréf Reita, sem hækkuðu um 0,86% í 79 milljóna viðskiptum.

Mesta fjörið var með bréf Skeljungs, en viðskipti með þau námu hátt í 1,1 milljarði króna í dag, sem telst harla óvenjulegt, en fyrr í dag seldi Festa lífeyrissjóður bréf í félaginu fyrir 1.063 milljónir króna eða því sem nemur um 4,99% hlut. Eftir viðskiptin á Festa 0,2% hlut í Skeljungi. Þá hækkuðu bréf félagsins jafnframt um 0,37% í dag.

Af lækkunum ber helst að nefna Marel, sem lækkaði um 0,64% í 103 milljóna króna viðskiptum, Íslandsbanka sem lækkaði um 0,46% í 100 milljóna viðskiptum og Arion sem lækkaði um 0,15% í 248 milljóna viðskiptum.

Þá hækkaði Vís um 0,69% í 80 milljóna króna viðskiptum, Icelandair um 0,65% í 66 milljóna viðskiptum, Síminn um 0,47% í 195 milljóna viðskiptum og Eik um 0,47% í 73 milljóna viðskiptum.