Vegna þess hve fáar tilnefningar hafa borist í trúnaðarráð Pírata hefur fresturinn til að tilnefna í ráðið verið framlengdur til 15. ágúst næstkomandi klukkan 18:00.

Sjö manna framkvæmdaráð skipar í ráðið

Almennir flokksmenn geta tilnefnt einstaklinga í trúnaðarráðið, sem starfa á starfsárið 2016-2017, en framkvæmdaráð flokksins skipar í ráðið. Æskilegt er þó að þeir hafi áður gengt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, en þeir eiga ekki að gegna öðrum trúnaðarstörfum meðan þeir sitja í ráðinu.

Framkvæmdaráðið er sjö manna ráð þar sem fimm aðalmenn og fimm varamenn eru kosnir á aðalfundi, en tvær aðalmanneskjur og tvær varamanneskjur eru slembivaldar. Fundir þess eru opnir félagsfólki, nema verið sé að ræða trúnaðarmál.

Almennir flokksmenn beðnir um að senda inn tilnefningar

Hlutverk þess er að bjóða sáttamiðlun og aðstoð þegar upp kemur ágreiningur eða annar vandi í samskiptum og starfi félagsmanna, það getur jafnframt einnig haft frumkvæði að sáttamiðlun ef það telur þörf á því.

Senda á tilnefningar í framkvæmdaráð flokksins en við val á fulltrúum verða sérstaklega metin hæfni í mannlegum samskiptum, sjálfstæðum vinnubrögðum og hvort þeir hafi almennt traust meðal flokksmanna.

1.034 kusu milli 105 frambjóðenda á öllu höfuðborgarsvæðinu

Fyrir helgi lauk prófkjöri Pírata fyrir kjördæmin þrjú á höfuðborgarsvæðinu. Röðuðust þar í þrjú efstu sætin, sem hver um sig getur þá valið sér oddvitasæti í hverju kjördæmanna Reykjavík Suður, Reykjavík Norður og Suðvesturkjördæmi, þau Birgitta Jónsdóttir, Jón Þór Ólafsson og Ásta Helgadóttir, sem öll eru núverandi eða fyrrverandi þingmenn flokksins.

Frambjóðendur í prófkjörinu voru rétt rúmlega 10 af hundraði þeirra sem kusu, eða 105 af 1034 kjósendum fyrir allt höfuðborgarsvæðið.