Hamborgarafabrikkan opnaði formlega sinn þriðja veitingastað í Kringlunni í dag á svipuðum stað og Hard Rock Café var til forna.

Jóhannes Ásbjörnsson, annar eigenda Fabrikkunnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að staðsetningin sé skemmtileg tilviljun. „Við höfum alltaf verið að stíla á þessa stemningu sem var á Hard Rock í gamla daga og því er gaman að vera á þessum slóðum.“

Stærsti básinn á staðnum, Krókurinn, heitir í höfuðið á Pétri Kristjánssyni heitnum. „Þar eru alls konar munir sem tengjast honum. bæði sem voru á Hard Rock í gamla daga, en eins munir sem við fengum frá fjölskyldu hans.“ Jóhannes segir að listamaðurinn Tolli sé þegar búinn að mála kýr fyrir nýja staðinn, en kúastyttur prýða hina Fabrikkustaðina tvo.