Markaðsvirði Facebook er orðið meira en 100 milljarðar dollara og hefur aldrei verið meira. Fjárfestar eru bjartsýnir á að samfélagsmiðillinn geti aukið sölu á auglýsingum í farsíma og spjaldtölvur.

Hlutabréf fyrirtækisins hafa hækkað um 55% það sem af er ári.

Þetta er umtalsverð breyting frá því þegar fyrirtækið var skráð á markað í maí í fyrra en þá tók gengi hlutabréfanna dýfu, fór úr um 38 dölum á hluti niður í 18 dali á hlut í ágúst sama ár. Margir höfðu áhyggjur af því hvort fyrirtækið gæti aukið sölu á auglýsingum fyrir tæki á borð við iPad og iPhone. Stutt er síðan að fyrirtækið tilkynnti um metuppgjör en þá jukust tekjur um 53% í 1,8 milljarða. Það var umtalsvert meira en fjárfestar bjuggust við.

Hlutabréf Facebook hækkuðu um 1,9% í 41,3 dollara á hlut í gær og hefur það aldrei verið hærra í lok dags.