*

mánudagur, 21. september 2020
Erlent 28. júlí 2020 09:44

Facebook áskar ESB um brot á friðhelgi

Facebook telur umfang þeirra gagna sem ESB heimtar vegna rannsókna á samkeppnismálum brjóti gegn friðhelgi starfsmanna sinna.

Ritstjórn
epa

Samfélagsmiðillinn Facebook hefur höfðað mál gegn Evrópusambandinu (ESB) vegna ásakana um brot á friðhelgi starfsmanna. Financial Times greinir frá

Facebook heldur því fram að eftirlit ESB hefði óskað eftir of víðtækum gögnum fyrir tvær yfirstandandi rannsóknir sem varða samkeppnismál. Samfélagsmiðillinn hefur beðið Almenna dómstólinn í Lúxemborg að stíga inn í málið. 

Rannsóknir ESB byggjast á hvernig Facebook aflar sér tekna í tengslum við gagnasöfnun og hvort að Marketplace starfsemi þess (ekki í boði á Íslandi), vettvangur fyrir auglýsingar á fasteignum, störfum og annað slíkt, hafi óréttlátt forskot á samkeppnisaðila á smáauglýsingamarkaðnum. 

Frá því í mars hefur Facebook útvegað Framkvæmdaráði ESB 1,7 milljónir blaðsíðna af skjölum, sem fela meðal annars í sér tölvupóstsamskipti innan fyrirtækisins. ESB hefur einnig óskað eftir öllum skjölum sem innihalda lykilorð og frasa líkt og „stór spurning“, „ókeypis“, „ekki gott fyrir okkur“ og „lokun“ (e. shutdown). 

Í áfrýjun Facebook heldur fyrirtækið því fram að þessi tilmæli væru of víðtæk og myndu ná til einkaupplýsinga starfsmanna. 

Embættismenn ESB segjast vera að fylgja hefðbundnu verklagi á samkeppnisrannsóknum og að þeir hefðu engan áhuga á persónuupplýsingum. Framkvæmdaráðið neitaði að tjá sig um málið. 

Stikkorð: ESB Evrópusambandið Facebook