Facebook mun fatast flugið og verður á svipuðum slóðum og MySpace og Yahoo eftir fimm til átta ár. Þetta fullyrðir Eric Jackson, stofnandi bandaríska fjármálafyrirtækisins Ironfire Capital í samtali við bandarísku viðskiptafréttastöðina CNBC.

Jackson þessi er virkur dálkahöfundur vestanhafs og vinnur m.a. fyrir Bloomberg og The Street þar sem Jim Cramer ræður ríkjum.

Hann segir að eftir þann tíma sem áður var nefndur verði Facebook dautt fyrirtæki í þeirri merkingu að fyrirtækið muni ekki halda áfram að þróast þótt það muni koma með að skila hagnaði og annað fyrirtækið taka við keflinu. Það sama eigi við um fleiri fyrirtækið á borð við Google á næstu fimm árum þegar næsta kynslóð veffyrirtækja taka að líta dagsins ljós.

Á netmiðlinum 24/7 Wall St er rifjað upp að Jackson hafi ekki fylgt hinum sauðunum sem lofuðu skráningu Facebook á hlutabréfamarkað fyrir að verða þremur vikum.

Svartsýnisspá Jacksons er í samræmi við hrakfarir Facebook á hlutabréfamarkaði. Á þeim þremur vikum sem fyrirtækið hefur verið á hlutabréfamarkaði hefur gengi fyrirtækisins nær ekkert gert nema leitað niður á við. Það hefur fallið um tæp 4,3% það sem af er degi og stóð þegar þetta var skrifað í 26,55 dölum á hlut. Það merkir að gengið hefur hrunið um 17% frá hlutafjárútboði degi fyrir skráningu.

Ef hins vegar er miðað við fallið frá hæsta gengi þann sama dag þá nemur gengishrunið 41%