Notendur Facebook Messenger munu bráðlega geta notað appið til að senda peninga sín á milli. Þjónustan verður ókeypis til að byrja með. Time greinir frá.

Kerfið mun virka þannig að notendur tengja debetkort við notendaaðgang sinn og skrá síðan sérstaka kennitölu. Notendum verður boðið upp á að nota frekari auðkenni til að auka öryggi greiðslumiðlunarinnar. Facebook bendir þó á að fyrirtækið afgreiði nú þegar um milljón greiðslur á dag með öruggum hætti, svo sem vegna leikja og auglýsinga á samfélagsmiðlinum.

Mörg tæknifyrirtæki hafa þegar bætt greiðslulausnum við þann hugbúnað sem þau bjóða upp á. Má þar nefna Snapchat, Apple og Google. Flest þessara fyrirtækja virðast ekki hafa það í hyggju að afla sér tekna með færslugjöldum heldur virðist tilgangurinn frekar vera sá að gera hugbúnaðinn notadrýgri og þannig auka eftirspurn eftir honum.

Facebook virðist fylgja þessari stefnu, enda hefur Mark Zuckerberg lýst því yfir að hann hafi ekki áhuga á að afla tekna af Messenger appinu þangað til það hefur milljarð notenda. Í nóvember greindi Facebook frá því að appið væri komið með 500 milljónir notenda.