Hagnaður Facebook á fjórða ársfjórðungi nam 4,3 milljörðum dala sem nemur um 430 milljörðum króna á gengi dagsins í dag að því er Bloomberg greinir frá .

Tekjur félagsins námu tæpum 13 milljörðum dala og fóru fram úr spám flestra greinenda sem þykir til marks um gríðarlega sterka stöðu félagsins á auglýsingamarkaði. Félagið þurfti þó að greiða um 3,2 milljarða í skatta en um 2,3 milljarða af þeirri upphæð má rekja til skattbreytinga í Bandaríkjunum.

Rekstur félagsins er því í góðum höndum þrátt fyrir að notendur samfélagsmiðilsins hafi varið 5% minni tíma á honum. Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, tilkynnti nýlega að félagið myndi ráðast í töluverðar breytingar á miðlinum sem hafa það markmið að auka þýðingarmikil samskipti en í því getur falist að Facebook mun beina notendum frá fyrirtækjasíðum og auglýsingum. Zuckerberg sagði að mikilvægasti mælikvarði félagsins væri ekki hversu miklum tíma notendur eyddu á miðlinum heldur væri það gæði samskiptanna.

Um 1,4 milljarður notenda notar Facebook daglega en heldur hefur dregið úr aukningu notenda á undanförnum misserum. Fjölgun notenda á heimsvísu á fjórðungnum nam 33 milljónum manns en á sterkasta markaði Facebook, Norður-Ameríku, fækkaði notendum um 700.000.