Þrátt fyrir það að stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg, muni þurfa að greiða allt að tvo milljarða dala í skatt vegna væntanlegs hlutabréfaútboðs netfyrirtækisins, mun það þó ekki hafa mikil áhrif á hann persónulega og fyrirtækið gæti hagnast á skattbyrði hans. Í úttekt CNN er farið yfir það hvernig Zuckerberg ætlar að standa straum af álagningunni, sem kemur einkum til vegna hækkunar á verði hlutabréfaeignar og kauprétta Zuckerbergs.

Í fyrsta lagi mun hann innleysa kauprétti og selja bréf til að greiða skattinn, þannig að það fé sem nú er inni á bankareikningum hans verður þar áfram. Facebook fyrirtækið mun hins vegar hagnast mjög á þessari innlausn Zuckerbergs og annarra starfsmanna á kaupréttum. Samkvæmt bandarískum lögum má draga slíkar innlausnir frá bókfærðum rekstrarhagnaði og má því búast við því að tap verði á rekstri Facebook á næsta ári, samkvæmt bókhaldinu. Það þýðir að fyrirtækið mun eiga heimtingu á að fá endurgreiddan hluta af þeim skatti sem Facebook greiddi af eins milljarðs dala hagnaði þess í fyrra. Í útboðslýsingu Facebook segir að þessi endurgreiðsla gæti hlaupið á um 500 milljónum dala og komi til greiðslu á fyrri helmingi næsta árs.

Þrátt fyrir að Zuckerberg verði væntanlega skattakóngur Bandaríkjanna á þessu ári mun hann hins vegar detta niður í lægsta tekjubilið árið 2012, því að hans ósk hefur Facebook ákveðið að lækka laun hans niðu r í einn dal á ári.