Hlutabréfaverð í Facebook hefur lækkað um rúm 6% í dag eftir að í ljós kom að félagið Cambridge Analytica hafði aðgang að upplýsingum um tugi milljóna notenda miðilsins. Síðarnefnda félagið hafði tengsl við kosningabaráttu Donalds Trump árið 2016.

Stjórnmálamenn bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa verið harðorðir í garð Facebook og þótt fyrirtækið standa illa að því að stýra aðgangi að gögnum um notendur sína. Damian Collins, formaður breskrar þingnefndar um fjölmiðla og menningu, hefur meðal annars sagst ætla að óska eftir að Mark Zuckerberg eða annar háttsettur stjórnandi innan Facebook komi fyrir nefndina og beri vitni. Þá hefur dómsmálaráðherra Massachusetts fylkis einnig lýst því yfir að málið yrði rannsakað.