Erlendir fjölmiðlar greina frá því að Facebook sé í viðræðum við stórar plötuútgáfur og hefur það sett af stað orðróma um að fyrirtækið ætli mögulega að opna sína eigin streymisþjónustu.

Þessar fréttir koma einungis tveimur dögum eftir að Apple hóf að bjóða upp á sína eigin tónlistarveitu, Apple Music. Samkvæmt heimildarmönnum “The Verge” er Facebook í viðræðum við tónlistarútgáfur Sony, Universal og Warner um að hasla sér völl í tónlistarbransanum.

Ekki er þó mikið vitað um hvað nákvæmlega Facebook ætlar sér. Undanfarið hefur fyrirtækið mikið lagt upp úr því að fá myndbönd inn á samfélagsmiðilinn vinsæla og mælast myndbandsáhorf nú fjórir milljarðar á dag. Í september 2014 voru áhorfin einungis einn milljarður.

Þá ætlar Facebook einnig að byrja að bjóða þeim sem sýna myndbönd á síðunni brot af auglýsingatekjum og er talið að markmiðið sé að veiða fólk frá YouTube.

Í stuttu máli virðist markmið Facebook að gefa notendum sínum minni og minni ástæðu til að þurfa að leita á nokkra aðra vefsíðu.