Undirbúningur fyrir skráningu Facebook á hlutabréfamarkað er í fullum gangi. Stefnt er að skráningunni á næsta ári og búist við að félagið selji hlutafé fyrir 10 miljarða dala, jafnvirði 1.200 milljarða króna, að sögn heimildamanna bandaríska stórblaðsins Wall Street Journal. Gangi allt eftir kemst verðmiði á netrisann sem gæti orðið 100 milljarða dala virði.

Wall Street Journal segir David Ebersman, fjármálastjóra Facebook, hafa fundað með fjármálafólki í Silicon Valley ásamt Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook. Zuckerberg mun hins vegar ekki hafa litist á klausur í þeim samningum sem lagðar voru fyrir hann.

Ekki er búið að ráða fjármálafyrirtæki til að útbúa skráningarlýsingu og vinna að skráningu Facebook á markað, að sögn Wall Street Journal.

Facebook fór í loftið fyrir sjö árum og eru notendur nú 800 milljón talsins.

© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)