Facebook hefur gagnrýnt stjórnvöld í Þýskalandi fyrir lagasetningu sem mun neyða samfélagsmiðlafyrirtæki til að greiða sekt upp á allt að 50 milljónum evra ef þeim tekst ekki að fjarlægja haturorðræðu og falskar fréttir af miðlum sínum.

Segir Facebook löggjöfina leiða til þess að fyrirtækin muni fara að fjarlægja efni sem sé löglegt af ótta við háar sektir. Þetta kemur fram í frétt Business Insider .

Lagafrumvarp um að sekta skuli samfélagsmiðla ef þeim tekst ekki að fjarlægja ógnandi og falskar færslur, var lagt fyrir þýska þingið í mars síðastliðnum. Ríkistjórn landsins samþykkti svo lögin í apríl enn atkvæðagreiðsla um þau á eftir að fara fram.

Í yfirlýsingu sem Facebook gaf frá sér um síðustu helgi kemur fram að þeir telji lögin muni ekki þjóna tilgangi sínum um að draga úr hatursorðræðu og fölskum fréttum. Þeir telja að lögin veiti fyrirtækjum hvata til þess að eyða efni sem minnsti vafi leiki á um hvort uppfylli skilyrði laganna.

Fyrirtækið bætir við að löggjöfin muni hafa þau áhrif að ábyrgðin á flóknum lagalegum ákvörðunum sé færð frá stjórnvöldum til einkaaðila. Auk þess nefna þeir að þónokkrir sérfræðingar í Þýskum lögum telji lögin stangast á við stjórnarskrá landsins auk þess sem þau samræmist ekki lögum Evrópusambandsins.