*

laugardagur, 14. desember 2019
Erlent 14. ágúst 2019 11:16

Facebook hlustar á hljóðupptökur

Samfélagsmiðillinn Facebook hefur viðurkennt að hafa haft starfsmenn í vinnu við það að hlusta á hljóðupptökur.

Ritstjórn
epa

Samfélagsmiðillinn Facebook hefur viðurkennt að hafa haft starfsmenn í vinnu við það að hlusta á hljóðupptökur sem notendur miðilsins senda í gegnum messenger appið. Frá þessu er greint á vef Forbes.

Fyrirtækið segir að notendur messenger hafi samþykkt að þetta yrði gert en viðurkenndu jafnframt að notendurnir vissu ekki að mannfólk myndi hlusta á upptökurnar sjálfar. 

Facebook staðhæfir að notendaskilmálar samfélagsmiðilsins séu skýrir og þeir segi að fyrirtækinu sé heimilt að safna upplýsingum um fólk og nota þær.

Facebook segir jafnframt að fyrirtækið hafi hætt þessu uppátæki fyrir um viku síðan eftir að hafa komist að því að fyrirtæki á borð við Google hafi einnig hætt að láta mannfólk hlusta á hljóðupptökur.