Facebook er á lokametrum í undirbúningi fyrir útgáfu á eigin rafmynt og samkvæmt áætlun félagsins á myntin að vera komin í gagnið á næsta ári, að því fréttavefur BBC greinir frá. Um er að ræða rafrænt greiðslukerfi sem verður nothæf í tólf löndum.

Umrætt greiðslukerfi verður fyrsti vísirinn að alþjóðlegri rafmynt sem er langtímamarkmið Facebook með verkefninu. Innanhús gengur myntin og verkefnið undir nafninu GlobalCoin. Reiknað er með að Facebook muni kynna verkefnið formlega í sumar, en samkvæmt heimildum BBC er undirbúningur vel á veg kominn.

Stofnandi og forstjóri Facebook, Mark Zuckerberg, fór á fund bankastjóra Englandsbanka, Mark Carney, í síðasta mánuði og voru tækifæri og hættur vegna útgáfu rafmynta til umræðu á fundi nafnanna. Þá hefur Facebook einnig óskað eftir ráðgjöf og upplýsingum frá fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna. Loks eru staðfestar heimildir fyrir því að félagið hafi átt í viðræðum við rótgróin fyrirtæki í greiðslumiðlun á borð við Western Union um ódýrari og hraðvirkari aðferðir til að senda og taka á móti greiðslum án þess að bankareikningar komi við sögu.

Facebook hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir meðhöndlun á persónuupplýsingum notenda sinna og af þeim sökum er reiknað með að eftirlitsaðilar muni fylgjast náið með útgáfu myntarinnar. Fyrr í mánuðinum sendi bandaríska þingið Zuckerberg opið bréf þar óskað er eftir frekari upplýsingum um hvernig rafmyntin muni virka. Hvernig félagið hyggst standa vörð um réttindi neytenda og meðhöndla gögn sem innihalda persónuupplýsingar.