Ráðherra innra öryggis í Ísrael, Gilad Erdan, kallar facebook skrýmsli í sjónvarpsviðtali. Sakar ráðherrann samfélagsmiðilinn, og eiganda þess, Mark Zuckerberg, um að gera ekki nóg til að banna og fjarlæga efni sem hvetur til ofbeldis af vef sínum.

Stúlka drepin í svefni á heimili sínu

Er hann þar sérstaklega að vísa í hvatningu til árása Palestínumanna gegn Ísraelum, en árásir með hnífum og öðrum vopnum hafa kostað marga almenna borgara þar í landi lífið undanfarið þar með talið 13 ára stúlka sem var drepin í svefni á heimili hennar í Vesturbakkanum, sem gyðingar kalla Júdeu og Samaríu.

Síðan í októbermánuði hafa árásir á götum úti kostað 34 Ísraelsmenn og tvo Bandaríkjamenn lífið í landinu, en á sama tíma hafa öryggissveitir Ísraels drepið 201 Palestínumann, þar af 137 árásarmenn samkvæmt lögregluyfirvöldum.

Hvatt hefur verið til árásanna á Facebook, og hafa yfirvöld í Ísrael hvatt til þess að slíkt efni sé fjarlægt en óánægja er með hve vel af því hafi verið staðið. Liggur nú lagasetning í loftinu þar sem Ísraelsk yfirvöld hyggja setja í lög að síður eins og facebook, youtube og twitter verði að fjarlægja efni sem hægt sé að líta á að hvetji til ofbeldis og hryðjuverkaárása.