*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Erlent 1. maí 2018 18:41

Facebook kynnir stefnumótanýjung

Facebook hefur kynnt sitt eigið Tinder, sem fólk getur notað til að byggja „raunveruleg sambönd til langs tíma“.

Ritstjórn
Mark Zuckerberg og Priscilla Chan.
epa

Samfélagsmiðillinn Facebook hefur kynnt áform um nýja stefnumótaþjónustu fyrir notendur sína. Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, greindi frá þessu í ræðu sinni á hinni árlegu F8 ráðstefnu í dag. CNBC greinir frá.

„Þetta verður til að byggja raunveruleg sambönd til langs tíma – ekki eingöngu til að slá sér upp með einhverjum í eitt skipti,“ sagði Zuckerberg.

Notendur búa til stefnumótaprófíl og í kjölfarið mælir Facebook með öðrum notendum (sem ekki eru vinir manns á Facebook). Það grundvallast á stefnumótaóskum hvers og eins, sameiginlegum áhugamálum, viðburðum sem báðir notendur hafa sótt, sameiginlegum vinum á Facebook og fleiru. Facebook-vinir notandans munu ekki geta séð stefnumótaprófílinn.

Geri notendur hosur sínar grænar fyrir hverjum öðrum geta þeir sent einkaskilaboð sín á milli á sérstöku forriti sem verður óháð Facebook Messenger og WhatsApp.

Gengi bréfa í stefnumótafyrirtækinu Match Group, sem meðal annars á og rekur Tinder, féll um 20 prósentustig í kjölfar frétta af þessari nýjung hjá Facebook. Móðurfélag Match, IAC, féll um 10 prósent í verði.

Í árslok 2017 voru virkir notendur á Facebook 2,2 milljarðar í hverjum mánuði um allan heim.

Stikkorð: Facebook tækni stefnumót