Facebook hyggst framleiða tvo sæstrengi sem munu tengja Bandaríkin við Indónesíu í fyrsta sinn. Framtakið, sem inniheldur einnig Google sem hluthafa, mun útvega hraðara internet til suðaustur Asíu, sem er sá markaður sem vex hraðast meðal snjallsímanotenda í heiminum. Financial Times greinir frá.

Sæstrengirnir munu auka gagnagetu um 70% milli vesturstrandar Bandaríkjanna og Asíu, segir í tilkynningu Facebook í gær. Alls eru rúmlega 400 sæstrengir virkir í heiminum í dag. Eitt sinn voru fjarskiptafyrirtæki stærst á þessu sviði en tæknifyrirtæki á borð við Facebook, Microsoft og Google eru nú orðin leiðandi fjárfestar í þessum innviðum.

„Á þessu svæði fjölgar notendum forrita okkar hraðast svo þetta er mjög mikilvægt fyrir þennan áframhaldandi vöxt [...] og svo að vörur og þjónustur okkar hafi snögga, áreiðanlega og nægjanlega afkastagetu,“ er haft eftir Kevin Salvadori, varaforseta fjarskiptainnviða hjá Facebook.

Facebook neitaði að tjá sig um fjárhæð fjárfestingarinnar. Áætlað er að lagning sæstrengjanna klárist árin 2023 og 2024.