Gengi hlutabréfa Facebook hefur hækkað um heil 15% síðan afkomutölur fyrirtækisins voru birtar í gær. Gengi hlutabréfa Facebook fór í tæpa 62 dali á hlut og hefur það aldrei verið hærra. Eftir að uppgjör Facebook var birt eftir lokun markaða í gærkvöldi rauk gengi hlutabréfanna upp um 12%.

Hagnaður Facebook nam 523 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi í fyrra sem var tæplega 10-falt meira en á sama tíma ári fyrr en þá nam hagnaðurinn 64 milljónum dala. Tekjur fyrirtækisins námu 2,59 milljörðum dala á fjórðungnum sem var talsvert yfir væntingum greiningaraðila.

Í netútgáfu tímaritsins Times er haft eftir Mark Zuckerberg, forstjóra og stofnanda Facebook, á uppgjörsfundi með fjárfestum að hann búist við því að þetta verði árið sem fyrirtækið setji á markað ýmsar nýjungar á sviði farsímalausna.

Hlutabréf Facebook voru skráð á markað í maí árið 2012. Skráningin gekk illa og gerði gengi hlutabréfa félagsins lítið annað en að lækka frá skráningu. Það fór úr 38,2 dölum á hlut á fyrsta viðskiptadegi niður 18 dali á hlut þegar verst lét. Það var í ágúst árið 2012. Síðan þá hefur gengið verið að stíga hægt upp á við. Það hefur hækkað um 63% frá skráningu á markað fyrir að verða tveimur árum og næstum 250% frá því það var lægst á markaði.

Við skráningu Facebook á markað fyrir tæpum tveimur árum var markaðsverðmæti fyrirtækisins um 100 milljarðar dala. Miðað við gengi bréfa fyrirtækisins nú er það 151 milljarður dala, jafnvirði um 17 þúsund milljarða íslenskra króna.