Facebook stefnir að skráningu í kauphöll síðla á næsta ári. Það er nokkuð seinna en búist hefur verið við hingað til, að því er Financial Times greinir frá í dag. Búist er við að hlutafjárútboð félagsins verði með þeim stærri í sögunni.

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, vill bíða með skráninguna þar til í fyrsta lagi í september 2012. Hann vill að starfsmenn einbeiti sér að vöruþróun í stað mögulegs ávinnings af skráningu félagsins.

Financial Times bendir á að fleiri netfyrirtæki, til að mynda Groupon og Zynga, bíði nú með skráningu vegna óróleika á markaði.

Þrátt fyrir að Facebook verði ekki skráð á markað fyrr en í fyrsta lagi á seinni hluta næsta árs þá þarf fyrirtækið að greina frá rekstrarniðurstöðum í apríl 2012. Er það vegna þess að hluthafar félagsins eru orðnir fleiri en 500 talsins.