Bandaríska samfélagssíðan Facebook undirbýr nú hlutafjárútboð og skráningu á markað vestanhafs. Talið er að verðmæti fyrirtækisins hlaupi á bilinu 75-100 milljörðum Bandaríkjadala.

Stórblöðin Financial Times og Wall Street Journal fjölluðu bæði um hlutafjárútboðið um helgina en talið er að Facebook muni leggja fram viðeigandi pappíra um skráningu á miðvikudaginn. Þrálátur orðrómur hefur verið um hlutafjárútboð Facebook en félagið eða forsvarsmenn þess hafa ekkert viljað tjá sig um málið í nokkra mánuði.

Þá er talið að Facebook muni afla um 10 milljarða dali með sölu á nýju hlutafé. Fari svo er hér um að ræða eitt stærsta hlutafjárútboð sem þekkist á Wall Street. Til samanburðar aflaði Google sér 1,9 milljarði dala með hlutafjárútboði árið 2004. Metið á þó bílaframleiðandinn General Motors sem aflaði 20 milljarða dala með hlutafjárútboði í nóvember 2010 eftir því sem fram kemur í upprifjun BBC.

Samkvæmt umfjöllun fyrrnefndra blaða verður Morgan Stanley leiðandi ráðgjafi í útboðinu en í samstarfi við Goldman Sachs. Samkvæmt gögnum sem Goldman Sachs hefur sýnt viðskiptavinum sínum hagnaðist Facebook um 355 milljónir dala á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Á sama tíma námu tekjur félagsins 1,2 milljörðum dala.

Mark Zuckerberg
Mark Zuckerberg
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook.