Þingmenn allra stjórnarflokka á Alþingi gagnrýndu harkalega bæði fyrrverandi stjórnendur Sparisjóðsins í Keflavík og stjórnvöld fyrir endurreisn hans í sérstakri umræðu um uppgjör Spkef og Landsbankans. Málshefjandi var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var málshefjandi og Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra til andsvara.

Bjarni krafðist skýringa á þeirri ákvörðun stjórnvalda eftir hrun að leyfa sparisjóðnum að starfa þrátt fyrir að hafa ekki uppfyllt kröfur um eiginfjárhlutföll og tapað einum milljarði króna á mánuði.

Oddný svaraði því til að stofnun SpKef á rústum Sparisjóðsins í Keflavík hafi helgast af því að stjórnvöld vildu standa við vernd innstæðna. Hefði það ekki verið gert í tilviki sparisjóðsins hefðu innstæðueigendur þar verið þeir einu sem hefðu verið án tryggingarinnar. „Það er ljóst að virði eignasafnsins var stórlega ofmetið, innviðir veikari og orðspor sjóðsins stórlega laskað,“ sagði Oddný.

Hér má sjá brot af því sem ráðherrar og þingmenn sögðu um málefni Sparisjóðsins í Keflavík og SpKef:

Steingrímur J. Sigfússon : Aðkoma ríkisins að Sparisjóðnum í Keflavík og SpKef var í samræmi við neyðarlögin. Unnið var eftir þeim pólitísku reglum sem voru lagðar  lagðar af þeirri ríkisstjórn sem var við stjórn í hruninu og fékk í gegn að ríkið myndi styðja við bakið á sparisjóðunum. „Sjálfstæðismenn studdu það þegar 399 milljarðar voru samþykktir til að leggja til banka og fjármálafyrirtækjanna. Kostnaður ríkisins er enn innan við 200 milljarðar króna. Stjórnendur sparisjóðsins bera ábyrgð á honum og þeir ættu að ganga hægt um gleðinnar dyr. SpKef tók þátt í afskriftum skulda og fékk á sig gjaldeyrisdóma. Hann fékk ekki sömu meðhöndlun og bankarnir.“

Margrét Tryggvadóttir : Örlög Sparisjóðsins í Keflavík eru sorgleg. Það er pínlegt að reyna að sjá tap stjórnenda hans klínt á ráðherra. Ég hefði vilja sjá bankasýsluna koma meira inn í þetta. „Hér var við völd ríkisstjórn sem lofaði að tryggja allar innstæður. Það var gert í þessu tilviki. Það er kannski galin hugmynd – en kannski hefði verið æskilegt að tryggja lágmarksupphæð.“

Lilja Mósesdóttir : Fólk sem kemur skuldum sínum yfir á aðra – skattborgara – hefur framið glæp. „Ákæra verður alla þá sem beittu glæpsamlegum aðferðum við að koma skuldum sínum yfir á aðra. „Við verðum að afnema fulla innstæðutryggingu strax – þetta er glæpsamlegt!“

Guðlaugur Þ. Þórðarson : Endurreisn SpKef var ekki í samræmi við neyðarlögin heldur átti að veita sparisjóðunum 20% af stofnfé þeirra. Sú leið var ekki farin. „Stór misstök voru gerð eftir hrun.“

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir : SpKef deildi út fé með óábyrgum hætti. Nú er að koma í ljós að hann var með eindæmum illa rekinn. Fréttir af honum bera dæmi um fádæma spillingu. „Mér er illskiljanlegt  hvað tveir af máttarstólpum samfélagsins, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, vilja með þessari aðgerð. Eru þeir að hugsa um hagsmuni almennings eða eru þeir að beina sjónum frá spillingu í eigin röðum?“

Gunnar Bragi Sveinsson : Það er eðlilegt að þeir sem stjórnuðu Sparisjóðnum í Keflavík verði gagnrýndir mjög harkalega. „Það breytir því ekki að það voru einhvejrir sem tóku ákvarðanir um það hvernig átti að endurvekja sparisjóðinn. VIð hljótum að spyrja okkur. Hvað gerðist áður en hann fór í þrot? Hvað miklar voru innstæður í sparisjóðnum? Hvað hefði kostað að tryggja þær? Og hvernig var eftirlit með sjóðum fyrir og eftir hrun? Það þarf að skoða þetta mjög gaumgæfilega.“

Steingrímur J. Sigfússon : Auðvitað spyr maður sig spurninga um stjórnendur og endurskoðendur sparisjóðsins. Hver úttektin á sparisjóðnum var gerð á fætur öðrum og við skulum gera ráð fyrir að sparisjóðurinn hafi haft sína eigin endurskoðendur.

Þór Saari : Þetta er enn ein afleiðingin af fjármálasukkinu sem kynnt var undir af Sjálfstæðisflokki og Framsókn sem kostaði skattgreiðendur hundruð milljarða. Ábyrgð stjórnenda, sveitarstjórnarmanna og fleiri sem hafa sterk pólitísk tengsl og eins afskriftir vina og vandamanna vekja upp spurningar um umboðssvik. Sparisjóðurinn í Keflavík var birtingarmynd kunningja og klíkusamfélagsins. „Kunningjasamfélagið er enn við lýði og mun rísa á ný. Hér þarf að skipta um fólk.“

Bjarni Benediktsson : „Það var ætlun mín að ræða um ákvarðanir sem teknar voru af stjórnvöldum eftir hrun. En það kemur í ljós að menn eru ekki tilbúnir til að ræða um eigin ábyrgð. Við vissum að SpKef var illa rekinn og þess vegna þurfti hann að skila inn rekstrarleyfi sínu. Það verður að skilja á milli sögu Sparisjóðsins í Keflavík og ákvarðana sem teknar voru eftir hrun.“