Raunverð íbúðarhúsnæðis hefur hækkað um tæp 10% frá sumrinu 2017, þegar skarplega dró úr ævintýralegum hækkunum áranna á undan. Sá stöðugleiki fasteignaverðs sem ríkt hefur í þau tæp þrjú ár á sér fáar hliðstæður frá aldamótum.

Markaðsverð íbúða
Markaðsverð íbúða
© vb.is (vb.is)
Eftir að bygging íbúðarhúsnæðis nánast stöðvaðist í hruninu fór að bera á miklum framboðsskorti nokkrum árum síðar, á sama tíma og ferðamönnum fór að fjölga hratt og kaupmáttur launa að aukast.

Íbúðabygging tók hægt og rólega við sér með auknum efnahagsumsvifum og hækkandi fasteignaverði næstu árin. Fjöldi fullgerðra íbúða á árinu jókst jafnt og þétt frá 2011 til 2018, úr 1,8 á hverja 1.000 manns í 6,5, eða um 269% á þessum sjö árum. Enn voru þær þó færri 2018 en þær höfðu verið á hverju ári frá 2002 til og með 2008, á hverja 1.000 íbúa.

Eftir að miklum fasteignaverðshækkunum linnti og núverandi efnahagslægð tók við af góðærinu komu fram áhyggjur af því að jafnvel væri of mikið magn íbúða í byggingu og stefnt gæti í raunverðslækkun þeirra.

Útlit er þó fyrir að hægja hafi tekið á íbúðabyggingu , sem vegur upp á móti fallandi eftirspurn vegna lægðarinnar, og því líklegt að verð haldist áfram nokkuð stöðugt í fyrirsjáanlegri framtíð.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .