Jöfnuður er eitthvað sem Samfylkingin hefur talað mikið fyrir. Þarf að auka jöfnuð í samfélaginu?

„Já,“ segir Árni Páll Árnason.

Hann er þá ekki orðinn of mikill eins og sumir vilja meina?

„Nei. Ójöfnuður verður til með margvíslegri hætti en með tekjunum einum. Hann verður til dæmis til með því að það safnast upp auður á milli kynslóða," segir hann.

„Það var fátítt fyrir bara 20-30 árum síðan, en núna er gríðarlegur auður að færast á milli kynslóða. Sá auður skapar aðstöðumun, alveg óháð því hvaða tekjur þú hefur. Þá ertu kannski með einstakling sem þarf aldrei að taka lán fyrir því sem hann kaupir og hins vegar einstakling sem þarf alltaf að borga hæstu húsnæðisvexti í Evrópu, bara til þess að eignast þak yfir höfuðið.“

Framsóknarmenn stundum hrokafullir

„Maður heyrir ótrúlega hrokafullan tón stundum, sérstaklega frá Framsóknarmönnum þegar þeir eru að tala niður löng verðtryggð lán. Af hverju tekur fólk 40 ára verðtryggð lán? Það er af því að fólk er ekki fætt með silfurskeið í munni og þetta er eina leið fólks til að komast yfir öruggt húsnæði. Þetta er vissulega dýrt og óhagkvæmt og þess vegna viljum við losna við þennan gjaldmiðil. En þótt peningar séu dýrir er ekki hægt að áfellast fólk sem á þá ekki fyrir að taka þá að láni. Þetta er einn þáttur sem kemur ekki inn í hefðbundna launajafnaðarútreikninga.“

„Svo er það bara ennþá þannig að það er gríðarlegur efnamunur í samfélaginu. Það eru mjög erfiðar aðstæður einstæðra foreldra. Barnafátækt er óþægilega mikil, miðað við aðstæður okkar að öðru leyti," bætir hann við.

Börn fara enn svöng að sofa

„Gamall félagi okkar í Neskaupstað, Stefán Þorleifsson, rakti fyrir mér og fleirum í vetu sögu sína. Hann er 99 ára. Hann rifjaði upp þegar hann var sjálfur sendur til útróðra fyrir opnu hafi, tíu ára gamall. Þegar hann missti úr skóla vegna þess að hann kól á fótunum þegar hann var að ganga í skólann. Þegar hann gat ekki sofnað á kvöldin vegna þess að hann var svo svangur. Hann sagði: Aðstæður á Íslandi hafa blessunarlega breyst mikið og við eigum að vera stolt af því og þakklát fyrir það. En því miður er það ennþá þannig að það fara börn svöng að sofa."

„Verkefni okkar er að halda áfram að hugsa um þau börn sem fara svöng að sofa. Það er ekki hægt að lýsa hugmyndinni um jöfnuð betur en Stefán gerði. Jöfnuður er ekki leið til að draga úr tækifærum fólks eða fella í alla í sama mót, þvert á móti. Við gleðjumst yfir því að fólk nýti tækifærin. En við getum ekki hætt að tala um þá sem sitja eftir, því þeir eiga líka að fá séns,“ segir Árni Páll Árnason að lokum.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, var í ítarlegu viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .