*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 16. nóvember 2019 13:09

Fæddist fullorðin

Svava Johansen, eigandi NTC, var aðeins átján ára er hún ákvað að segja skilið við nám til að einbeita sér að rekstrinum.

Sveinn Ólafur Melsted
Svava Johansen, eigandi NTC.
Eyþór Árnason

Svava Johansen er eigandi fataverslunarkeðjunnar NTC og hefur hún starfað við kaupmennsku frá unga aldri. Hún á ekki langt að sækja kaupmennskuna, enda komin af kaupmönnum í báðar ættir. Í dag rekur hún 14 verslanir ásamt manni sínum, Birni Sveinbjörnssyni, framkvæmdastjóra NTC.

„Pabbi minn, Rolf Johansen, rak sitt fyrirtæki, RJC, í yfir fimmtíu ár. Fyrirtækið flutti inn stóran hluta af því víni, tóbaki og snyrtivörum sem til var í landinu á þeim tíma. Hann var slyngur samningamaður,  mjög áhugasamur og vakandi yfir sínu fyrirtæki. Hann var hæsti skattgreiðandi mörg ár í röð og ég lærði mjög margt af honum. Afi minn í móðurætt, Ásgeir Ásgeirsson, rak síðan eina góða kjörbúð alla sína tíð í Þingholtsstræti. Hann vann þar alla daga og stundum amma mín líka. Ég hef tekið ólíka nálgun á hlutina og haft gaman af því að byggja upp, opna fleiri verslanir og stækka. Maður spyr sig stundum hvort sé betra, en ég held að það sé ekki til eitt rétt svar við því - það er mismunandi hvað hentar hverjum og einum. En það var vart hægt að finna hamingjusamari hjón en í litlu kjörbúðinni í Þingholtunum. Í föðurætt átti ég svo langafa sem var mikill útgerðarmaður á Höfn í Hornafirði og víðar á Austurlandi. Þessir tveir menn hafa alið af sér nokkra kaupmenn, en pabbi hefur haft mikil áhrif á mig í viðskiptum," segir Svava.

Sautján ára í SAUTJÁN

NTC er byggt á grunni heildsölu sem stofnuð var um miðja síðustu öld. Félagið hóf verslunarrekstur árið 1976, þegar verslunin SAUTJÁN var opnuð á Laugavegi 46 og stuttu seinna flutti hún á Laugaveg 51.

Svava hóf fyrst störf hjá SAUTJÁN aðeins sautján ára gömul. Með tíð og tíma óx SAUTJÁN og þegar verslanir voru orðnar margar og ólíkar þá var ákveðið að endurnefna móðurfélagið. Varð nafnið NTC fyrir valinu, en það stendur fyrir Northern Trading Company. NTC hefur síðan haldið áfram að vaxa og í dag rekur fyrirtækið fjórtán verslanir á höfuðborgarsvæðinu, og er meðalfjöldi starfsmanna fyrirtækisins um 130. Auk þess lætur félagið framleiða eigin hönnun erlendis og það rekur sömuleiðis heildsölu sem selur m.a. fatnað og skó til verslana í Reykjavík og á landsbyggðinni.

„Ég kem að SAUTJÁN árið 1981, þá enn í námi í Verslunarskóla Íslands. Ég kynntist þá fyrrverandi manninum mínum, en hann hafði rekið verslunina í nokkur ár þar á undan. Eftir að hafa lokið verzlunarprófinu ákvað ég að setja skólann á bið, það var orðið svo mikið að gera hjá okkur og ég vildi einbeita mér alfarið að rekstrinum. Á þessum tíma var ég einungis 18 ára , en mér þótti það ekkert tiltökumál. Ég er steingeit og það hefur oft verið sagt að við fæðumst fullorðnar. Það má segja að ég hafi verið þannig; ábyrgðarfull ung manneskja. Mér fannst fatabransinn mjög spennandi og ég hef aldrei séð eftir því að hafa valið þessa vinnu fram yfir skólann, enda hef ég alltaf haft gríðarlegan áhuga á bæði viðskiptum og fatnaði, og þakka fyrir hve vel okkur hefur gengið í gegnum tíðina. Þegar ég var lítil og var að leika mér með vinkonum í búðarleik, þá vildi ég alltaf leika kaupmanninn. Ég hef því haft áhuga á kaupmennsku frá barnsaldri og tel mig heppna að hafa fengið að starfa við það sem mér finnst skemmtilegast - viðskipti og tísku," segir Svava og bætir við:

„Það er auðvitað alltaf eitthvað ákveðið í tísku á hverjum tíma og okkur hafði tekist að ná vel utan um hvað var í tísku hverju sinni. Þess vegna var alltaf nóg að gera hjá okkur á Laugaveginum í byrjun ferðalagsins  og reksturinn gekk mjög vel. Í kjölfarið uxum við hratt á Laugaveginum og árið 1987 var stór Gallerí 17 verslun opnuð í Kringlunni. Fljótlega bættum við svo fleiri verslunum í verslunarsafnið  þar.

Þann 15. nóvember árið 1990 opnuðum við svo stærstu Gallerí 17 verslunina, á Laugavegi 91, en rýmið var um 2.400 fermetrar. Verslunin var þar í u.þ.b. tvo áratugi og þetta var spennandi verkefni; að opna svona stóra svokallaða „mini department store" á þremur verslunarhæðum, þar sem hægt var að nálgast svo marga ólíka hluti. Í húsinu var herra- og dömudeild auk þess var Cafe 17 kaffihús, stór undirfata- og snyrtivöruverslun, skóverslun, „vintage" markaður, saumastofa, heildsala og skrifstofur NTC. Fólk hafði fyrst ekki trú á að verslun myndi ganga vel þar, en það var mjög mikið að gera hjá okkur í um 10 -15 ár.

Kringlan var þarna í mikilli samkeppni við miðbæinn og jókst samkeppnin enn meira þegar Smáralindin var opnuð í október árið 2001. En ég myndi segja að mesta breytingin í verslun hér á landi átti sér stað við opnun Kringlunnar árið 1987. Ég gleymi ekki spenningnum þegar við opnuðum þann 13. ágúst 1987 klukkan átta um morguninn. Biðraðirnar voru svo langar að maður komst vart inn á svæðið. Í dag rekum við sjö verslanir þar og hefur Kringlan verið mjög gott markaðssvæði í mörg ár. Árið 2005 keyptum við rekstur verslunarinnar  RETRO og breyttum henni í kvenfataverslunina Karakter. Verslunin er enn þar í dag og gengur mjög vel.  

Við rekum þrjár verslanir í Smáralind og er mikil uppsveifla þar í dag. Okkur þykir mjög rökrétt að reka verslanir inni í verslunarmiðstöðvum. Það er mikill kuldi á Íslandi flesta mánuði ársins og því er skiljanlegt að fólk leiti inn í hlýjuna. Á Íslandi eru þó mjög margir sem elska miðbæinn og vilja helst versla þar og koma um leið við á kaffihúsi eða veitingastað. Erlendum ferðamönnum hefur síðan fjölgað svo mikið síðastliðin átta ár að rekstrargrundvöllur er aftur orðinn mjög góður í miðbænum. Það er líka gaman að sjá hversu ólíkur verslunarmáti er í miðbænum miðað við verslunarmiðstöðvarnar."

Nánar er rætt við Svövu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: NTC Svava Johansen