Samtals hófu 3.547 fyrirtæki starfsemi árið 2018 og var heildarfjöldi virkra fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu 31.430. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar .

Flest fyrirtæki sem hófu starfsemi voru í byggingarstarfsemi og tengdum greinum eða 622. Í einkennandi greinum ferðaþjónustu hófu 466 fyrirtæki starfsemi árið 2018 samanborið við 652 árið 2017 og 762 fyrirtæki árið 2016.

Fæðingartíðni fyrirtækja sem hlutfall af heildarfjölda virkra fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu var 11% árið 2018. Fæðingartíðni fyrirtækja er breytileg eftir atvinnugreinum. Árið 2018 var fæðingartíðni fyrirtækja lægst 6% í sjávarútvegi og framleiðslu en hæst 12% í tækni- og hugverkaiðnaði.

Fjöldi starfsmanna hjá fyrirtækjum sem hófu starfsemi árið 2018 var rúmlega 3.500 og námu rekstrartekjur þessara fyrirtækja 34,7 milljörðum.