Fæðingartíðni í þeim evrulöndum sem verst hafa orðið úti efnahagslega frá hruninu 2008 hefur lækkað töluvert, þótt lækkunin sé mismikil eftir löndum. Í fréttaskýringu Wall Street Journal segir að haldi þessi þróun áfram muni hún gera slæma stöðu enn verri því í mörgum tilvikum er stór hluti vanda viðkomandi ríkissjóða sá að þeir sitja uppi með mjög háar lífeyrisskuldbindingar. Eftir því sem fæðingum fækkar því færri einstaklingar verða til staðar til að vinna fyrir lífeyrisgreiðslum þeirra sem eldri eru.

Almennt er miðað við að fæðingar verði að vera um 2,1 á hverja konu til að halda mannfjölda stöðugum ef horft er framhjá áhrifum innflytjenda á íbúafjölda. Frá árinu 2008 hefur þetta hlutfall lækkað töluvert í Grikklandi, Portúgal og á Írlandi og Spáni. Árið 2008 var fæðingartíðnin 1,51 árið 2008 en var um 1,43 árið 2011. Á sama tíma fjölgaði fóstureyðingum í landinu um 50% og voru 300.000 talsins árið 2011.

Á Spáni var fæðingartíðnin 1,46 árið 2008 en var 1,36 árið 2011. Talið er að í Portúgal hafi um 90.000 börn fæðst í fyrra og hefur þessi tala ekki verið lægri í sextíu ár. Ef fram heldur sem horfir munu Portúgalir vera um níu milljónir árið 2030, en þeir eru um tíu milljónir talsins núna. Þá gerir hagstofa Spánar ráð fyrir því að Spánverjum muni fækka um 10% á árunum til 2052 og er þá gert ráð fyrir því að innflytjendum fjölgi frá því sem nú er.