*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Innlent 12. febrúar 2017 15:04

Fáeinar konur og börn eftir í Grímsey

Bjarni Þór Jónsson, umboðsmaður Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, segir frá tilurð sýningarinnar og vexti hennar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Íslenska sjávarútvegssýningin hefur verið haldin á þriggja ára fresti allt frá árinu 1984 og verður hún haldin nú í 12. sinn dagana 13. til 15. september næstkomandi.

Bjarni Þór Jónsson, umboðsmaður Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, hefur komið að sýningunni alveg frá því að hún var fyrst haldin árið 1984 af breskum eigendum sýningarinnar.

„Þetta hafa verið svona 150 til 200 básar yfirleitt og um 500 sýnendur. Þetta er reyndar þriðji eigandinn að sýningunni, en bresk fyrirtæki hafa átt hana frá upphafi,“ segir Bjarni.

„Breska félagið hafði verið með sjávarútvegssýningu í Kaupmannahöfn en nokkrir Íslendingar sem höfðu farið á þá sýningu stungu upp á því við Bretana að koma með sýningu hingað heim.

Það voru þeir Eiríkur J. Tómasson, Pétur Eiríksson og fleiri sem stofnuðu fyrirtæki sem var umboðsaðili fyrir breska fyrirtækið hér heima.“

Sýningarnar voru til að byrja með haldnar í Laugardagshöll en með tilkomu Fífunnar, sem býður upp á 12.500 fermetra rými, var sýningin flutt yfir í Kópavog.

Stækkað um 40% eftir flutning

„Mig minnir að það hafi verið um 40% stækkun eftir að hún fór þangað yfir. Með tilkomu frjálsíþróttahússins í Laugardalnum er sýningarrýmið samanlagt þar samt mun minna eða einhverjir 7-8 þúsund fermetrar,“ segir Bjarni.

„Sýningarnar hafa verið vel sóttar alveg frá upphafi, en það voru um 10 til 12 þúsund manns á fyrstu sýningunum.

Menn höfðu orð á því að í Grímsey til dæmis væru bara fáeinar konur og börn eftir því allir aðrir væru á sjávarútvegssýningunni í Reykjavík.

Það er eiginlega þannig að allir sem eiga heimangengt og eru í þessum iðnaði og tengdir honum hér á landi mæta og gerum við ráð fyrir að í haust komi um 16 þúsund manns auk fjölda erlendra gesta.“

Nánar má lesa um málið blaðinu Fundir og ráðstefnur sem fylgdi Viðskiptablaðinu 9. febrúar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.