Í morgun samþykkti ríkisstjórnin nýjar reglur um starfshætti sína, en í fréttatilkynningu um málið segir að þær feli í sér veigamiklar breytingar á eldri reglum um sama efnið.

Markmiðið með breytingunum er að stórefla efnislegan undirbúning fyrir ríkisstjórnarfundi með auknu samráði og samhæfingu á milli ráðherra.

Helstu breytingar fela í sér að ríkisstjórnarfundir verða haldnir að jafnaði einu sinni í viku, á föstudögum, en ekki tvisvar eins og verið hefur.

Þá verður undirbúningi funda hagað með þeim hætti að ráðherrar hafi tök á að kynna sér mál, sem lögð eru fram af hálfu annarra ráðherra í ríkisstjórn, með lengri fyrirvara en áður. Gert er ráð fyrir að nýjar reglur komi til framkvæmda mánudaginn 13. mars nk.