Velta í farþegaflutningum með flugi var 29% lægri í maí-júní síðastliðinn en á sama tímabili 2018, að því er fram kemur í tölum Hagstofu Íslands um skammtímahagvísa ferðaþjónustu í september. Þrátt fyrir mikinn samdrátt í flugi var velt í öðrum einkennandi greinum ferðaþjónustu nánast óbreytt milli ára og lækkaði einungis 0,2% milli sömu tímabila.

„Á þessu tímabili hættu tvö flugfélög starfsemi, Primera Air í október 2018 og WOW air í mars 2019,“ segir í frétt á vef Hagstofunnar.

Launþegum í ferðaþjónustutengdum greinum fækkaði um 9% síðastliðin júlí frá sama mánuði í fyrra. Starfsfólki fækkaði um 2.900 á þessu tímabili og var um fækkun starfsfólks að ræða í öllum flokkum tengdum ferðaþjónustu. Mest fækkaði launþegum í flugi eða um 19% sem jafngildir 1.100 starfsfólki á milli ára. Samtals störfuðu 29 þúsund manns í ferðaþjónustu  í júlí samanborið við 31.900 í sama mánuði í fyrra.

„Gistinætur í júlí voru samtals 1.634 þúsund sem er 2% lækkun frá sama mánuði síðasta árs þegar þær voru 1.674 þúsund. Gisting greidd í gegnum vefsíður, á borð við Airbnb, dróst saman um 5% á sama tíma og fækkaði gistinóttum um 13 þúsund á milli ára. Bíla- og innigisting dróst einnig saman um 21% á milli ára. Á sama tíma fjölgaði gistinóttum á hótelum og gistiheimilum um 2% á milli ára og framboð hótelherbergja jókst um 3%. Nýtingarhlutfall hótelherbergja lækkaði örlítið á sama tímabili, úr 83% niður í 81%,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Athygli vekur að velta í bæði rekstri gististaða og veitingasölu var óbreytt í júlí miðað við sama mánuði 2018. Velta erlendra ferðaskrifstofa dróst saman um 11% í júlí frá sama mánuði í fyrra en á móti kemur að velta innlendra ferðaskrifstofa jókst um 2% milli sömu mánaða.