Ef fram fer sem horfir mun sæta framboð Kanadíska flugfélagsins Air Canada yfir sumarmánuðina dragast saman um 4.000 sæti að því er fram kemur á vefnum túristi.is . Félagið hefur flogið hingað til lands frá bæði Montreal og Toronto og hafa Boeing 737 MAX vélar félagsins verið nýttar til flugsins.

Vegna kyrrsetningar MAX vélanna hefur kanadíska félagið gripið til þess ráðs að nota Airbus A319 vélar frá dótturfélagi sínu Air Canada Roughe á flugleiðum sínum til landsins. Samkvæmt Túrista var framboð Air Canada með MAX vélunum í fyrra um 22.000 sæti en þar sem Airbus vélarnar taka einungis 136 farþega á móti 169 í MAX vélunum má gera ráð fyrir því að sætaframboðið í ár verði einungis um 17.500 sæti.

Síðasta sumar og haust nam fjöldi kanadískra ferðamanna til landsins um 60.000 og aðeins voru Bandaríkjamenn, Bretar og Þjóðverjar fjölmennari. Samkvæmt Túrista eru þó vísbendingar um að fjöldi þeirra gæti verið ofmetinn þar sem þeir kaupa mun færri gistinætur á landinu í samanburði við hinar fjölmennu þjóðirnar.