*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 8. september 2019 12:03

Fækkun bensínstöðva gæti raskað samkeppni

Samkeppniseftirlitið óttast að áform Reykjavíkurborgar um helmings fækkun bensínstöðva gæti hamlað samkeppni.

Sveinn Ólafur Melsted
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur sent bréf til Reykjavíkurborgar með tilmælum vegna samningsmarkmiða borgarinnar um fækkun bensínstöðva í sveitarfélaginu og mögulegra áhrifa aðgerðanna á samkeppni. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í byrjun sumars þá var markmið um að bensínstöðvum í Reykjavík fækkaði um helming fyrir árið 2025 samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í borgarráði.

Í bréfinu  ítrekar SKE fyrri tilmæli sín frá því í apríl 2017. Í umræddu áliti nr. 2/2017 segir meðal annars að SKE telji að stefna borgarinnar hvað varðar eldsneytisstöðvar og framkvæmd hennar sé samkeppnishamlandi. Stefna borgarinnar  undanfarin ár hafi í senn hindrað starfsemi nýrra og smærri keppinauta á markaðnum og að líkindum leitt til þess að starfandi félög héldu að sér höndum við hagræðingu og lokun stöðva. Framkvæmd stefnunnar væri skýrt dæmi um skaðsemi þess að huga ekki að áhrifum skipulags og lóðaúthlutana á samkeppni.

Í bréfinu viðrar SKE sömuleiðis hugmyndir að aðgerðum fyrir borgina sem gætu eflt samkeppni á markaðnum. Segir eftirlitið að Reykjavík sé talin vera mikilvægasti smásölumarkaðurinn fyrir eldsneyti á bifreiðar og ákvarðanir borgarinnar í lóðamálum gætu haft alvarlegar afleiðingar á samkeppni á landsvísu. Rannsóknir hafi sýnt fram á að verð sé að jafnaði lægra á eldsneytismörkuðum þar sem sjálfstæðir smásalar eða matvöruverslanir selja eldsneyti. Bendir SKE borginni því á að til að efla samkeppni væri ákjósanlegast að borgin heimilaði aðilum að setja upp bensínstöðvar með minni yfirbyggingu.  Auk þess beinir SKE því til borgarinnar að leita leiða til að ná markmiðum sínum án þess að þau feli í sér svo alvarlegar samkeppnishindranir. SKE segir afar brýnt að borgin taki tilmælin alvarlega, enda megi leiða líkur að því að stefna borgarinnar hafi hindrað samkeppni og þar með leitt til tjóns fyrir neytendur.

Þá tekur SKE undir sjónarmið borgarinnar að fjöldi eldsneytisstöðva sé umtalsverður. Bendir eftirlitið á að eldsneytisstöðvum hafi fjölgað hlutfallslega meira en íbúum á síðastliðnum áratugum og það endurspeglist í því að íbúum í Reykjavík fyrir hverja eldsneytisstöð hefur fækkað úr um 4.000 árið 1983 í um 2.700 árið 2010. Þrátt fyrir mikinn fjölda stöðva áréttir SKE að mikilvægt sé að aðgerðir borgarinnar sem snúa að því að fækka eldsneytisstöðvum hafi ekki skaðleg áhrif á samkeppni. Í niðurlagi bréfsins óskar SKE eftir því að Reykjavíkurborg bregðist við tilmælunum eigi síðar en 30. september næstkomandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér