Tímabundið ferðabann bandarískra stjórnvalda til og frá Evrópu, sem gildir í 30 daga frá 14. mars nk., mun hafa veruleg áhrif á flugáætlun Icelandair á tímabilinu og mun félagið draga enn frekar úr framboði á flugi í mars og apríl.

Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins í Kauphöll rétt í þessu, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti ákveðið að banna ferðir annarra en ríkisborgara, fólks með ótímabundið dvalarleyfi og ættingja þeirra til landsins vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Um 490 flugferðir eru áætlaðar til Bandaríkjanna á tímabilinu, en líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í nótt er það um 27% allra ferða flugfélagsins á tímabilinu. Ljóst er að útbreiðsla COVID-19 veirunnar hefur veruleg áhrif á ferðalög um allan heim.

Fjárhagsleg áhrif þessa á Icelandair Group eru sögð enn óviss en félagið er enn að greina mögulegar sviðsmyndir og mótvægisaðgerðir í ljósi stöðunnar. Félagið tilkynnti um enn meiri fækkun ferða en áður hafði verið ákvarðað á þriðjudag, en nú er ljóst að áhrifin verða meiri en þá var ákveðið.

Fjárhagsstaða Icelandair Group er þó sögð sterk og lausafjársstaða félagsins nam rúmum 39 milljörðum króna, eða sem nemur 301,6 milljónum bandaríkjadala, í árslok 2019 og segir félagið hana vera á sama stað í dag.

Úrslitastund í baráttunni við veiruna

Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur gripið til sinna ráða í baráttunni við útbreiðslu kórónaveirunnar Covid 19 sem talinn er eiga uppruna sinn í Wuhan borg í Kína. Í nótt tilkynnti hann að sams konar ferðabann og hefur verið í gildi gagnvart Kína sem gildir um öll Schengen ríki Evrópu, þar á meðal Ísland, en ekki Bretland.

Verða einungis Bandarískum ríkisborgurum frá þessum löndum, sem og þeir sem hafa varanlegt landvistarleyfi auk nánustu fjölskyldumeðlima hleypt inn í landið meðan á banninu stendur. Ákvörðunin nú kemur til viðbótar við viðamiklar aðgerðir sem kynntar voru fyrr í gær um skimun farþega.

Sagði Trump ástæðuna fyrir banninu nú að Bandaríkin væru að fara í gegnum „úrslitastund“ í baráttunni við veiruna en þar í landi hefur hún smitað 1.281 einstakling og þegar 37 látist úr heni.

„Við björguðum mannslífum með ákvörðun okkar um Kína. Nú verðum við að taka sömu ákvörðun um Evrópu,“ sagði Trump í ávarpi sínu til bandarísku þjóðarinnar. Bannið á þó einungis við um fólk, ekki vörur.