Í júlí síðastliðinn var 39 skjölum (kaupsamningum og afsölum) um atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu þinglýst. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár í dag. Það er minna en í mánuðinum áður en þá voru 55 skjölum þinglýst. Heildarfasteignamat seldra eigna var 3.367 milljónir króna. Af þessum skjölum voru 13 um verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Á sama tíma var 36 skjölum (kaupsamningum og afsölum) um atvinnuhúsnæði utan höfuðborgarsvæðisins þinglýst en það er einnig töluvert minna en í mánuðinum áður þar sem 53 skjölum var þinglýst. Heildarfasteignamat seldra eigna var 552 milljónir króna.

Þá var jafnframt á sama tíma 23 kaupsamningar um atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu skráðir í kaupskrá. Heildarupphæð þeirra var 997 milljónir króna og fasteignamat þeirra eigna sem samningarnir fjölluðu um 700 milljónir króna. Af þessum samningum voru 8 um verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.