Heildarfjöldi gistinátta í nóvember síðastliðnum stóð nánast í stað frá fyrra ári að því er Hagstofa Íslands greinir frá. Fjöldi gistinátta á hótelum jókst um 1% meðan herbergjanýting á hótelum var 58% og dróst hún saman um fimm prósentustig frá nóvember 2017. Á sama tíma hefur framboð á hótelherbergjum aukist um tæp tíu prósent.

Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum í nóvember fækkaði hins vegar um 0,5% á milli ára, en þær voru 542.000 í ár, en 544.000 í sama mánuði fyrra árs. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 351.200 og dróugust saman 0,7%.

18 þúsund borga ekki

Gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru 107.800 sem er fjölgun um 12,5% frá fyrra ári í mánuðinum og um 83.000 í gegnum vefsíður á borð við Airbnb, sem er fækkun um 13%.

Einnig voru gistinætur erlendra ferðamanna um 6.000 í bílum utan tjaldsvæða og um 18.000 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða á öðrum stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Tveir þriðju í borginni

Um 67% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu eða 205.000.

Um 88% gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn eða 269.800, sem er nánast óbreyttur fjöldi frá sama mánuði fyrra árs. Bandaríkjamenn voru með flestar gistinætur (82.000), síðan Bretar (75.800) og Kínverjar (15.000) en gistinætur Íslendinga voru 36.700.