*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Erlent 7. júlí 2020 19:15

Fær 1,6 milljarða dala styrk frá ríkinu

Lyfjafyrirtækið Novavax hefur náð samkomulagi við bandaríska ríkið um 1,6 milljarða dala styrk fyrir Covid bóluefni.

Ritstjórn
Stanley Erck, forstjóri Novavax
epa

Bandaríska lyfjafyrirtækið Novavax hefur náð samkomulagi um 1,6 milljarða dollara styrk frá bandarískum stjórnvöldum í gegnum „Operation Warp Speed“ ríkisáætlunina, fyrir möguleg Covid-19 bóluefeni, sem er jafnframt stærsti styrkur sem veittur hefur verið í gegnum áætlunina. 

Lyfjafyrirtækið hyggst nýta fjármagnið til að ráðast í klínískar tilraunir á lokastigum og framleiða hundrað milljónir skammta af bóluefninu fyrir janúar næstkomandi. 

„Viðbót Novavax í hið fjölbreyta safn bólefna Operation Warp Speed eykur líkurnar á að við fáum öruggt og skilvirkt bóluefni fyrir lok ársins,“ er haft eftir Alex Azar, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna í frétt Financial Times

Hlutabréfaverð Novavax hefur hækkað um 1.600% á árinu, jafnvel áður en samningurinn við bandaríska ríkið var tilkynntur. 

Stanley Erck, forstjóri Novavax, telur að fyrirtækið sé það eina sem búi til bóluefni byggt á öllu Sars-Cov-2 bindiprótíninu, frekar en einungis hluta þess, sem geri bóluefni skilvirkara. Novavax notar einnig ónæmisglæði (e. adjuvant), efni sem eykur ónæmi. 

Lyfjafyrirtækið hefur ekki gefið út nein gögn sem sýna fram á öryggi og skilvirkni bóluefnisins í manneskjum en niðurstöður úr fyrstu stigum klínískra rannsókna, sem framkvæmdar voru á 130 manns í Ástralíu, er að vænta í lok júlímánaðar. Ef rannsóknirnar reynast árangursríkar verður umfang þeirra stækkað svo að 30 þúsund þátttakendur taki þátt í haust. 

Erck sagði að bóluefnið hafi virkað vel í dýrum og að önnur bóluefni, líkt og eitt fyrir inflúensu, hafi „sýnt að það er ekki risastórt stökk“ frá því hvernig dýr og manneskjur bregðast við tækninni. 

„Við höfum bavíana gögn sem líta virkilega, virkilega vel út og jafnvel betur út en hjá nokkrum öðrum,“ bætir hann við.