Giancarlo Stanton, sem leikur hafnabolta með liðinu Miami Marlins, hefur skrifað undir nýjan samning við liðið, sem er til þrettán ára og hljóðar, samkvæmt fréttum, upp á um 325 milljónir dala, eða um 40 milljarða íslenskra króna. Stanton hefur átt í deilum við liðið undanfarið vegna launakjara og vildi fá launahækkun, sem hann hefur svo sannarlega gert.

Heilt yfir er þetta einn stærsti samningur sem bandarískur íþróttamaður hefur gert við lið, en þegar haft er í huga til hversu langs tíma samningurinn er þá eru nokkrir íþróttamenn sem fá hærri laun á ári en Stanton. Þeirra á meðal er Miguel Cabrera, sem spilar fyrir Detroit, en hann skrifaði í mars undir tíu ára samning sem í heild mun skila honum um 292 milljónum dala í laun.