Mark Pincus, stofnandi tölvuleikjaframleiðandans Zynga, mun fá greiddar um 193 milljónir dala eða 25 milljarða króna eftir kaup tölvuleikjaframleiðandans Take-Two á Zynga. Pincus mun einnig fá 350 milljónir dala eða 45 milljarða króna í hlutabréfum í Take-Two. Því fær hann samtals um 543 milljónir dala, eða 70 milljarða, í formi reiðufjár og hlutabréfa vegna kaupanna. Þetta kemur fram í grein hjá CNBC .

Sjá einnig: Kaupa Zynga á 1600 milljarða

Zynga hafði gengið í gegnum erfiða tíma fyrir kaupin, en félagið lagðist í hlutafjárútboð árið 2011 á útboðsgenginu 10 dali á hlut, en félagið þótti spennandi fjárfestingarkostur enda með tekjur upp á 830 milljónir dala á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2011. Facebook leikurinn Farmville var helsta tekjulind fyrirtækisins á þeim tíma.

Með tímanum fór Facebook að takmarka aðgang þriðja aðila eins og Zynga til að koma tölvuleikjum sínum á framfæri í gegnum samfélagsmiðilinn. Zynga var háð samfélagsmiðlinum, sem sást í ört minnkandi tekjum fyrirtækisins á árunum 2012 til 2014. Gengi hlutabréfa félagsins hrundi og náði sér aldrei á strik, fyrr en nú.