Héraðsdómur hefur fellt úr gildi úrskurð mannanafnanefndar um að meina Ingólfi Erni Friðrikssyni að bera Lúsífer sem seinna eiginnafn.

Undanfari málsins er sá að mannanafnanefnd hafði meinað Ingólfi að bera nafnið Lúsífer sem seinna eiginnafn í byrjun janúar á síðasta ári á grundvelli þess að það gæti verið nafnbera til ama þar sem að það væri eitt af nöfnum djöfulsins. Ingólfur, sem aðhyllist Laveyan Satanisma og hefur verið meðlimur í kirkju satans frá árinu 2001, stefndi í kjölfarið ríkinu. Taldi hann að brotið væri á trúfrelsi sínu og að nafnið væri ekki vísun í nafn djöfulsins heldur æðsta engil guðs sem var kastað til helvítis þar sem hann varð djöfulinn.

Úrskurðað var í málinu í gær, 25. maí og lauk því með því að kröfu hans um að viðurkenna að hann megi heita Lúsífer var vísað frá og úrskurður mannanafnanefndar felldur úr gildi. Þá getur mannanafnanefnd tæplega bannað nefnið. Einnig er íslenska ríkinu gert að greiða 900 þúsund krónur í málskostnað. Dómurinn féllst ekki á að brotið væri á trúfrelsi Ingólfs en samþykkti að nafnið hefði margþætta merkingu.

Samkvæmt íslenskri nútímamálsorðabók er nafnið ekki notað yfir djöfulinn heldur eingöngu um djúpsjávarfisk af skötuselsætt. Þá vísi orðið einnig til ljósbera og morgunstjörnunnar Venusar sem getur ekki talist hafa neikvæða merkingu. Jafnframt greinir vefsíða stofnunar Árna Magnússonar frá 61 ólíku nafni yfir djöfulinn og er nafnið Lúsífer ekki þar á meðal.

Leiðrétting: Í upphaflegri frétt stóð að Ingólfur fengi að heita Lúsífer en kröfu Ingólfs um að hann megi bera nafnið var vísað frá og úrskurður mannanafnanefndar felldur úr gildi