Ökumaður bifreiðar á rétt úr bótum úr ábyrgðartryggingu bifreiðar sinnar þrátt fyrir að vátryggingafélag hans hafi hann grunaðan um tryggingasvindl. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum (ÚRVá).

Síðasta dag nóvembermánaðar 2018 lenti einstaklingurinn í óhappi þegar annarri bifreið var bakkað á bifreið hans þar sem hún var kyrrstæð á bílastæði. Taldi ökumaðurinn, sem olli óhappinum, að hann hefði fest bensíngjöfina inni og með þeim afleiðingum að hann bakkaði á hinn bílinn á 40 kílómetra hraða á klukkustund. Ökumaður kyrrstæða bílsins leitaði til læknis í samdægurs og voru bakverkir enn að hrjá hann í byrjun síðasta árs.

Í nóvember í fyrra tilkynnti hann tryggingafélagi – það er sem tryggði bifreiðina sem var bakkað á bíl hans – um líkamstjón sitt og gekkst í kjölfarið undir sérfræðimat þar sem varanlegt líkamstjón var staðfest. Félagið féllst á bótaskyldu með fyrirvara um orsakatengsl vegna fyrra heilsufars en hafnaði síðan kröfunni vegna „sterks rökstudds grunar um vátryggingasvik“. Kæra vegna þessa var send lögreglu.

Ökumaðurinn sætti sig ekki við þá afstöðu og kærði málið hið snarasta til ÚRVá. Fyrir nefndinni fór tryggingafélagið fram á frestun málsins á meðan rannsókn lögreglu stæði yfir. Tilgangslaust væri að úrskurða í málinu enda myndi félagið ekki greiða út bætur þótt niðurstaðan yrði ökumanninum í vil.

Í niðurstöðu ÚRVá sagði að samkvæmt samþykktum nefndarinnar væri ekki að finna heimild fyrir því að fresta málinu á þessum grundvelli. Önnur skilyrði fyrir frestun væru ekki uppfyllt.

„Af bréfi [félagsins] til nefndarinnar má ráða að [kærandi] og ökumaður [bifreiðarinnar] séu, af hálfu [félagsins] grunaðir um fjársvik í tengslum við umræddan árekstur og að málinu hafi verið vísað til rannsóknar lögreglu. Í bréfinu er ekki að finna nánari rökstuðning á hverju sá grunur byggist, þó mögulega megi ráða í það af því sem fram kemur í fyrirliggjandi lögregluskýrslum. Það verður hins vegar ekki gert hér enda fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hvort refsiverð háttsemi hafi átt sér stað,“ segir í niðurstöðunni.

Taldi nefndin því að maðurinn ætti rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar.