Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá Glitni, fékk í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag viðurkennda rétt rúmlega 38 milljóna króna bónusgreiðslu í þrotabú bankans. Hann hafði áður gert kröfu um að bónusgreiðslan yrði flokkuð sem forgangskrafa. Ekki var á það fallist.

Fram kom á fundi slitastjórnar Glitnis á dögunum að samþykktar almennar kröfur í þrotabú bankans nemi 2.263 milljörðum króna.

Sérstakur saksóknari yfirheyrði Jóhannes vegna rannsóknar embættisins í tveimur málum sem hann tengdist. DV sagði fyrir tveimur árum að málin tengist Stím-málinu svokallaða og kaupum Glitnis á skuldabréf af Saga Capital í ágúst árið 2008 fyrir rúman einn milljarð króna.