Endurupptökunefnd hafnaði í nóvember í fyrra beiðni Sævars Arnar Hilmarssonar um að hluti dóms yfir honum yrði tekin upp á nýjan leik. Endurupptökubeiðnin laut að upptöku á Cadillac bifreið dómþolans. Úrskurðurinn var birtur í dag.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í maí 2014 var Sævar Örn dæmdur í fangelsi í eitt ár og fjóra mánuði fyrir margvísleg brot. Má þar nefna brot gegn hegningar-, fíkniefna-, umferðar-, vopna- og tollalögum. Með dóminum voru gerð upptæk vopn, skotfæri, sterar og fíkniefni en þar að auki bifreið af gerðinni Cadillac CTS. Samkvæmt ökutækjaskrá var umrædd bifreið afskráð í júní 2014.

Í endurupptökubeiðninni áréttaði hinn sakfelldi að hann teldi sig ekki hafa verið ranglega sakfelldan. Hins vegar væri það fortakslaust skilyrði þess að eignir yrðu gerðar upptækar með dómi að hinn sakfelldi væri skráður eigandi hennar. Það skilyrði hefði ekki verið uppfyllt. Á þeim tíma er umrædd brot voru framin hefði hann aðeins verið sameigandi bifreiðarinnar og þá væri nafn hans hvergi að finna á eigendasögu hans.

Umrædd bifreið hafði verið gerð upptæk vegna endurtekinna brota gagnvart umferðarlögum. Í umsögn ríkissaksóknara til endurupptökunefndar kom fram að endurupptökubeiðandi hefði verið skráður meðeigandi bifreiðarinnar á þeim tíma er brot var framið þótt hann hafi ekki verið skráður eigandi er dómur féll. Þá var á það bent að eignarhald á bílnum hafði verið fært yfir á fyrrverandi kærustu hins sakfellda á meðan haldlagningu stóð. Hún hafi því því verið grandsöm um haldlagninguna vegna brota.

Í niðurstöðu endurupptökunefndar kom fram að maðurinn hefði verið skráður eigandi bifreiðarinnar á þeim tíma er umrætt umferðarlagabrot var framið. „Af dómi héraðsdóms leiðir að það hafi ekki haft nokkra þýðingu í þessu sambandi þótt fyrrnefndur [X] hafi jafnframt verið skráður eigandi bifreiðarinnar eða að síðar hafi verið skráð eigendaskipti að bifreiðinni,“ segir í niðurstöðunni. Beiðninni var hafnað.