Knattspyrnufélag Reykjavíkur (KR) hefur verið dæmt til að greiða Kristófer Acox, landsliðsmanni í körfuknattleik, tæplega 11 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna vangoldinna launa. Frá dæmdri fjárhæð dragast greiðslur upp á rúmlega 7 milljónir króna sem KR hafði greitt upp í skuldina. Þá var KR gert að greiða 1,4 milljónir í málskostnað.

Sem kunnugt er var Kristófer einn ástsælasti sonur KR en hann hafði leikið með liðinu í deildakeppninni hér á landi auk þess að reyna fyrir sér í atvinnumennsku. Eftir háskólanám í Bandaríkjunum sneri hann aftur heim í KR og undirritaði í júní 2018 samning við félagið. Samkvæmt honum bar Kristófer að fá 600 þúsund krónur á mánuði í laun, frá upphafi keppnistímabils og til loka þess, auk afnota af bifreið. Að auki var samið um tiltekna bónusa í greiðslur næði liðið góðum árangri í deild og bikar.

Á móti átti Kristófer að vinna hálfan daginn í vinnu sem KR útvegaði honum og áttu laun þar að dragast frá launagreiðslum félagsins. Að auki bar KR að greiða kostnað sem til féll vegna sjúkraþjálfunar eða lækna en Kristófer bar að ráðfæra sig við félagið áður en meðferð hæfist.

Skömmu eftir að samningurinn var undirritaður bauðst Kristóferi að fara út til Frakklands í atvinnumennsku. Sú dvöl reyndist stutt og fór það svo að hann bauð KR krafta sína að nýju. Til þess þurfti að leysa hann undan samningi úti og greiddi KR fimm þúsund evrur til þess. Samkvæmt nýjum samningi var Kristófer á launum hjá KR allt árið og átti að fá 25 þúsund krónur í bónus fyrir hvern unnin leik.

Laun samkvæmt samningi aðila voru aldrei greidd á réttum tíma. Oftar en ekki var eitthvað greitt upp í kröfuna en sjaldnast mikið. Það kom þó fyrir að hærri fjárhæð var greidd en samið hafði verið um. Krafa Kristófers fyrir dómi hljóðaði upp á 11,2 milljónir króna, vegna launa frá því í desember 2018 og til september 2020 en seinasta hluta þess tímabils var lítið um körfubolta eftir að tímabilinu var aflýst sökum farsóttarinnar.

KR byggði varnir sínar meðal annars á því að Kristófer hefði verið mikið meiddur og umdeilt væri hvort hann ætti rétt á veikindalaunum. Enn fremur var byggt á því að röngum aðila hefði verið stefnt til varnar og rétt hefði verið að stefna Körfuknattleiksdeild KR sem hefði aðra kennitölu en KR sjálft. Þá hafnaði KR því að Kristófer ætti inni laun hjá félaginu enda hefði hann rift samkomulagi aðila með ólögmætum hætti. Hið rétta væri að KR ætti gagnkröfu á leikmanninn.

Það er skemmst frá því að segja að dómurinn féllst ekki á varnir KR. Meðal annars var byggt á því að KR hefði losnað undan efndaskyldu samningsins sökum Covid-19 faraldursins og þeirra áhrifa sem farsóttin hefði haft á fjárhag félagsins. Því var hafnað. Dómurinn lækkaði þó kröfu Kristófers lítið eitt þar sem hann hefði farið til Spánar síðasta haust, þurft að fara í sóttkví við heimkomu og því verið ófær um að efna samnings sinn við KR á meðan. Útskýrir það mun á dómkröfu og dæmdri fjárhæð.