Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun kröfu Guðmundar Jóns Matthíassonar sem vildi fá að vita hver hafi selt hlutabréf í Glitni á þeim fáu dögum sem liðu frá því ríkið tók yfir 75% hlut í bankanum í lok september árið 2008 og þar til Fjármálaeftirlitið tók yfir lyklavöldin í honum nokkrum dögum síðar. Guðmundur var á meðal þeirra sem keypti hlutabréf bankans á þessum tíma. Verðmæti þeirra varð að engu þegar bankinn féll. Hann stefndi Kauphöllinni og Glitni til að fá upplýsingar um það hverjir hafi selt bréfin á þessum tíma.

Í úrskurði dómsins segir, að Guðmundur hafi ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá upplýsingarnar og hafnaði því kröfu hans.

Guðmundur hafði áður stefnt stefnt íslenska ríkinu vegna tjóns sem hann varð fyrir vegna hlutabréfakaupanna. Niðurstaðan í því máli varð sú sama og í dag.

Þegar ríkið eignaðist 75% hlut í Glitni 29. september árið 2008 lagði það bankanum til 600 milljónir evra af nýju hlutafé á móti. Töldu margir að með gjörningnum hafi bankanum verið bjargað. Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, sagði í útvarpsviðtali síðar sama dag að ekki væri ástæða til að ætla annað en vel myndi ganga hjá Glitni í framtíðinni. Ríkissjóður myndi losa sig við hlutinn og batt hann vonir við fjárhagslegan ávinning af því.