Héraðsdómur Reykjavíkur synjaði í dag skiptastjóra þrotabús Baugs Group um að tveir matsmenn beri vitni í riftunarmáli þrotabúsins gegn Skarphéðni Berg Steinarssyni, fyrrverandi framkvæmastjóra fjárfestinga Baugs í fasteigna- og fjármálafyrirtækjum. Riftunarmál þrotabúsins gegn Skarphéðni er fyrir Hæstarétti.

Baugur Group keypti hlutabréf Skarphéðins í BGE Eignarhaldsfélagi í tveimur áföngum, 3. september árið 2008 og 27. október sama ár, fyrir um 100 milljónir króna. Eina eign BGE Eignarhaldsfélags voru hlutabréf í Baugi.

Matsmennirnir unnu fyrir þrotabúið í öðru máli þrotabúsins og mátu hlutabréfin í Baugi verðlaus um mitt ár 2008. Skarphéðinn var ekki aðili að því máli sem um ræddi.

Skiptastjóri þrotabús Baugs telur að samkvæmt því mati sem matsmennirnir gerði hafi greiðslan til Skarphéðins verið örlætisgerningur, eins og það er orðað í úrskurði héraðsdóms. Héraðsdómur taldi hins vegar ekki heimild standa til að matsmennirnir verði leiddir fyrir dóminn og hafnaði ósk skiptastjórans.

Helgi Birgisson, lögmaður þrotabús Baugs, sagði í samtali við vb.is í dag líklegt að úrskurður héraðsdóms verði kærður til Hæstaréttar.