Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Hildi Petersen, fyrrverandi stjórnarmann í Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) af kröfu manns sem vildi láta rifta kaupum hans á stofnfjárbréfum í Spron og til endurgreiðslu á kaupverðinu.

Fram kemur í málinu að maðurinn hafi í júlí árið 2007 keypt stofnfjárbréf í Spron fyrir fimm milljónir króna eftir að stjórn sparisjóðsins samþykkti að breyta formi hans í hlutafélag og óska eftir því að hlutabréf sparisjóðsins verði skráð á markað í september sama ár. Ráðgert var að markaði fyrir stofnfjárbréf í sparisjóðnum yrði lokað 7. ágúst 2007 og myndi stjórn hans ekki samþykkja framsal á þeim upp frá því.

Í dómnum segir að samkvæmt endurriti af hljóðrituðu símtali, sem stefnandi átti þá við tiltekinn verðbréfamiðlara, óskaði maðurinn eftir því að gert yrði fyrir sig tilboð í stofnfjárbréf á genginu 5,05 og miðað við að heildarkaupverð yrði 5.000.000 króna. Í símtalinu kom fram að gengið hefði hækkað mikið eftir að birt var fréttatilkynning um að SPRON væri á leið inn í Kauphöllina og markaðurinn hefði tekið við sér.

Skilanefnd Fjármálaeftirlitsins tók sparisjóðinn yfir í mars árið 2009.

Regluvörður og lögmaður leyfðu söluna

Hildur sagði við aðalmeðferð málsins að hún hafi ákveðið að selja 27% af stofnfjárbréfaeign sinni í sparisjóðnum á þessum tíma því hún hafi kosið að fjárfesta í Auði Capital til að leggja þeim konum lið sem að því félagi stóðu. Hún hafi ekki vitað að það var stefnandi sem keypti bréfin og hafi ekki séð fyrir að stefnandi yrði fyrir tjóni með kaupunum, en bréfin hefðu verið eftirsótt á markaði á þeim tíma. Þá segir í dómi héraðsdóms að regluvörður og lögmaður Spron hafi á þeim tíma sem hún seldi bréfin farið yfir málin og þeir upplýst stjórnarmenn að þeim væri heimilt að eiga viðskipti með stofnfjárbréf eftir birtingu fréttatilkynningar um skýrslu Capacent. Stefnda upplýsti að þegar stjórn sjóðsins samþykkti söluna 9. ágúst 2007 hafi hún ekki vikið af fundi, þar sem engin álitamál hefðu komið upp varðandi söluna.

Dómur héraðsdóms