Samkvæmt þingskjali sem lagt hefur verið fram á Alþingi svarar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ekki tveimur spurningum sem lagðar hafa verið fyrir hana á Alþingi. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði um hversu margir væru starfandi á verktakasamningum í stjórnarráðinu og vildi fá svarið sundurliðað eftir ráðuneytinum.

Einnig spurði Vigdís um utanlandsferðir starfsmanna og embættismanna í tveimur liðum.

  • Hvað fóru starfsmenn ráðuneyta og embættismenn í undirstofnunum þeirra oft til útlanda á árunum 2007–2010? Til hvaða lands var farið og í hvaða erindum?
  • Hver er heildarkostnaður við ferðirnar með dagpeningum, sundurliðað eftir árum, ráðuneyti og undirstofnunum?

Í svari Jóhönnu segir að forsætisráðuneytið geti ekki, innan þess ramma sem skriflegum fyrirspurnum er settur, svarað fyrirspurn þingmannsins. Vísað er í þingsköp sem segir að ráðuneyti hafi tíu virka daga til að svara fyrirspurnum þingmanna.

„Fyrirspurnir sem beinast að öllum ráðuneytum eru sjaldan þess eðlis að þeim verði svarað í stuttu máli og nánast er útilokað að svara slíkum fyrirspurnum innan tíu virkra daga frá því að fyrirspurn er leyfð," segir í svarinu.

Beinist að öllum ráðuneytum

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir.
© Hörður Kristjánsson (VB MYND/ HKR)
„Jafnframt er bent á að fyrirspurnin varðar málefni sem eru á ábyrgð allra ráðherra í ríkisstjórn en ekki einungis forsætisráðherra en það er skilyrði samkvæmt ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 49. gr. þingskapalaga að fyrirspurn sé beint til þess ráðherra sem ber ábyrgð á máli," segir í þingskjalinu.

Þá kemur fram að forsætisráðuneytið hefur undanfarið átt samskipti við skrifstofu Alþingis um vinnslu umfangsmikilla fyrirspurna og framtíðarfyrirkomulag að því leyti innan Stjórnarráðs Íslands og svarið sé sett fram í ljósi þeirra samskipta og frekari samskipta sem skrifstofa Alþingis hafi átt við alla ráðuneytisstjóra innan Stjórnarráðsins um þetta sama efni. „Æskilegt er að framangreind álitamál verði tekin til ítarlegrar umfjöllunar í tengslum við yfirstandandi endurskoðun á þingsköpum," segir í svari forsætisráðherra.